Líðan starfandi táknmálstúlka. Eru álag, streita og verkir að leiða til kulnunar hjá starfsstéttinni

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

B.A. verkefni Elsu Guðbjargar Björnsdóttur sem útskrifast frá HÍ árið 2017

Markmið þeirrar rannsóknar sem þessi ritgerð fjallar um var að kanna þá tilgátu hvort íslenskir táknmálstúlkar fyndu síður fyrir álagi, verkjum, þreytu í starfi og væru því ólíklegri til að kulna í starfi en táknmálstúlkar erlendis. Gerð var rannsókn sem náði til 13 íslenskra og 38 danskra táknmálstúlka á líðan þeirra í starfi. Einnig var leitast við að svara þeim rannsóknarspurningum hvort eftirtalin atriði ættu við rök að styðjast, breytingar hafi átt sér stað meðal íslenskra táknmálstúlka síðastliðin fimm ár, of mikið álag sé í starfi þeirra, þeir vanmeti kulnun í starfi ásamt því hvort einhver munur væri á álagi í starfi íslenskra og danskra táknmálstúlka. Þátttakendur voru alls 51 og tóku þátt með því að svara spurningum rafrænt sem síðan var fylgt eftir með viðtölum við þrjá íslenska og tvo danska táknmálstúlka.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að tilgátan virtist ekki standast. Bæði íslenskir og danskir táknmálstúlkar eru í áhættuhóp varðandi kulnun í starfi. Táknmálstúlkar eru undir miklu álagi í starfi. Rannsóknin leiddi í ljós að táknmálstúlkar þjást af margs konar álagstengdum líkamlegum verkjum vegna starfsins. Rannsóknin sýndi að bæði starfsálagið og þær kröfur sem gerðar eru til táknmálstúlka í starfi geta beinlínis valdið því að túlkar kulni.

Niðurstöður rannsóknar sýndu ennfremur að starfstengdar breytur, þ.e. vinnustundir, handleiðsla, álag og úrræði, hefðu áhrif á kulnun, túlkar sem hafa aðgang að stuðningi eða handleiðslu frá samstarfsmanni geta með þeim stuðningi komið í veg fyrir kulnun í starfi. Eins sýndu niðurstöður að eftir því sem túlkar nýttu sér fleiri úrræði, þeim mun ólíklegra var að þeir sýndu einkenni kulnunar. Starfsánægja og starfsálag virtust mikilvægasta breytan í líðan starfandi táknmálstúlka. Rannsóknin sem er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi sýnir að mikilvægt er að stutt sé vel við starfsstéttina því fyrir utan táknmálstúlkana sjálfa þá geta afleiðingar kulnunar haft víðtæk neikvæð áhrif bæði á túlkaþjónustuna og táknmálssamfélagið í heild.


Ritgerðina í heild sinni má nálgast í gegnum Skemmuna, Líðan starfandi táknmálstúlka. Eru álag, streita og verkir að leiða til kulnunar hjá starfsstéttinni