Öll erum við manneskjur. Skilgreining á hlutleysi táknmálstúlka á Íslandi
B.A. verkefni Stellu Bjartar Jóhannesdóttur sem útskrifaðist frá HÍ árið 2023
Táknmálstúlkar brúa bil á milli ólíkra tungumála- og menningarheima. Túlkar eru oft þeir einu sem skilja öll tungumálin í túlkunaraðstæðum en í því felst ákveðin ábyrgð. Túlkur endurspeglar þann sem talar og getur orðaval, tónn og flæði haft áhrif á samræður samskiptaaðila. Túlkum er hins vegar kennt það að hafa ekki áhrif á aðstæður og bera sig með hlutlausum hætti.
Túlkastéttin er þó ekki sú eina sem glímir við þversagnarkenndar starfskröfur. Rannsakendur í félagsvísindum sem hafa áhuga á því að skoða mannlega hegðun hafa alltaf átt í örðugleikum með að rannsaka eðlilega og hversdagslega hegðun fólks vegna þess að í hversdagsleikanum væri rannsakandi ekki á staðnum. Þetta fyrirbæri er einnig kallað þversögn athugandans eða á ensku ,,observers paradox”. Túlkar upplifa þetta fyrirbæri vegna þess að samkvæmt þeim og þeirra siðareglum er markmiðið að veita aðgang að samskiptum sem koma þeim ekki við. Túlkar eru líkamlega á staðnum í samtölum milli fólks og eru einnig þátttakendur í samræðum þar sem þeir miðla upplýsingum á milli samskiptaaðila.
Fjallað er um hlutverk og hlutleysi túlka og gerð grein fyrir því hvað felst í hugtakinu ,,hlutleysi”. Einnig er fjallað um menningu heyrnarlausra og afhverju viðhorf skipta máli. Framkvæmd var eigindleg rannsókn þar sem tekin voru viðtöl við táknmálstúlka annarsvegar og döff (sjá skilgreiningu í inngangi) hinsvegar.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að hlutleysi sé ekki klippt og skorið og sé breytilegt eftir aðstæðum. Hlutleysi er mikilvægt til þess að vernda mörk túlka en samvinna er einnig mikilvæg að sögn viðmælenda. Svör viðmælenda benda til þess að væntingar og kröfur döff til túlka hafi breyst með tímanum og aukinni þekkingu. Döff hafa orð á því ef þau eru ekki nógu ánægð með þá þjónustu sem þau fá. Túlkaþjónustan er mikilvæg svo döff hafi sama aðgang að samfélaginu líkt og heyrandi jafningjar- öll erum við manneskjur.
Ritgerðina í heild sinni má nálgast í gegnum Skemmuna, Öll erum við manneskjur. Skilgreining á hlutleysi táknmálstúlka á Íslandi