Valdefling heyrnarlausra

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

M.A. verkefni Iðunnar Ásu Óladóttur sem útskrifaðist frá HÍ árið 2014

Hugtakið valdefling hefur orðið áberandi innan þróunarfræðinnar síðastliðin ár þar sem áhersla er á þátttöku heimamanna í þróunarverkefnum. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna áhrif valdeflingar fyrir heyrnarlausa einstaklinga sem byggir á vettvangsrannsókn í Namibíu sem fór fram í september til október árið 2012 í gegnum Samskiptamiðstöð heyrnarlausa (CCDs) í Windhoek.

Áherslan var að hluta til á þróunarverkefni Þróunarsamvinnustofnununnar Íslands (ÞSSÍ),frá árunum 2006-2010 í Namibíu. Rannsóknin fór fram með þátttökuathugun og eigindlegri aðferð sem byggði á viðtölum, samtölum og samskiptum við hóp þátttakenda. Niðurstöðurnar benda til að þrátt fyrir miklar framfarir á sviði heyrnarlausra í Namibíu eru heyrnarlausir enn útilokaðir frá menntun að miklu leyti. Menntakerfið er ekki í stakk búið til að koma til móts við þarfir heyrnarlausra og skortur á túlkaþjónustu er enn mikil hindrun.

Niðurstöður benda til þess að þrátt fyrir að einstaklingar innan sviðs er varða heyrnarlausa leggi sitt af mörkum er enn skortur á skilningi og vilja innan stjórnkerfisins til að veita undanþágur innan menntakerfisins og leggja til kostnað í túlkaþjónustu. En niðurstöður gefa einnig til kynna að valdefling sé mikilvægt hugtak fyrir þróunarverkefni er varða heyrnarlaust fólk í þróunarlöndunum og geti leitt til valdeflingar heyrnarlausra einstaklinga til langs tíma.

Ritgerðina í heild sinni má nálgast í gegnum Skemmuna, Valdefling heyrnarlausra